Svörtuklettar eru í landi Heiðarbæjar 2 við norðvesturhluta Þingvallavatns. Móakotsá á ós á svæðinu og leitar urriðinn oft í ósinn til að melta og í fæðuleit. Svæðið er þekkt fyrir stóra urriða og ferðast þeir í torfum með ströndinni. Veiðin getur tekið miklum breytingum á svipstundu þegar torfa kemur inn á svæðið. Út af Svörtuklettum er hægt að vaða langt út á hraunhellu. Yst á hellunni er kantur sem urriðinn syndir gjarnan meðfram. Í víkinni er sand- og malarbotn og er hægt að vaða um hana alla í leit að fiski. Besti tími dags er á kvöldin en þá er oft hægt að sjá urriðann stökkva og dansa á yfirborðinu þegar torfurnar koma að landi.