Eskihlíðarvatn er í Landmannaafrétti, norðan við Lifrarfjallsvatn og Dómadalsvatn. Það er 1.53 km² að flatarmáli, dýpst um 27 m og í 530 m hæð yfir sjávarmáli. Náttúrufegurð við vatnið er mikil og ekki síst leiðin um Dómadal. Í vatninu er bæði urriði og bleikja og voru þarna þokkalega vænar bleikjur á sínum tíma, en nú er reyndin önnur. Góð uppeldisskilyrði fyrir bleikju hafa gert það að verkum að urriðinn hefur vikið smám saman og vatnið er nú ofsetið af smárri bleikju. Netaveiði hefur verið reynd en ekki skilað tilsettum árangri.