Hræddir um sýkingu í villtum fiski á Vestfjörðum

Veiðimenn sem voru að veiðum á veiðisvæði á Vestfjörðum fengu nokkra fiska í túrnum sem er svo sem ekki í frásögu færandi. Fiskarnir litu vel út og ekkert athugavert að sjá við þá. En þeim brá heldur betur í brún þegar fiskarnir voru opnaðir, því holdið í þeim leit sannarlega mjög illa út. Það fór ekkert á milli mála að kjötið í fiskunum var ónýtt vegna sýkinga.

,,Þetta var talsvert áfall að sjá þetta, við vorum ansi hressir með aflann og til stóð að matreiða hann en þegar búið var að opna fiskana blasti við okkur mjög ófögur sjón, kjötið var hreinlega uppétið eftir sýkingu í fiskunum. Við óttuðumst hið versta, að veiðisvæðið væri jafvel allt ónýtt vegna sýkingar og jafnvel í næstu fjörðum einnig enda ekkert nema laxeldi orðið út um alla Vestfirði með tilheyrandi hættu á hruni í lífríkinu. Það er í raun bara dagaspursmál hvernær öll veiðisvæði verða ónýt á Íslandi vegna mörg þúsunda prósenta hömlulausrar stækkunar á laxeldi í öllum fjörðum upp á hundruð þúsundir tonna af eldislaxi.

Það var haldinn fundur á meðal okkar sem vorum í túrnum og okkur leist alls ekki á blikuna því við vitum jú allir að það er bara tímaspursmál hvernær allar ár og vötn verða ónýt á Vestfjörðum, það er bara spurning hvernær það verður og miðað við hvað mikið sleppur í gegnum ónýta möskva í netum laxeldiskerja, þá verður það líklega miklu fyrr en við höldum.

Ákveðið að láta MAST rannsaka fiskana

Við ræddum málið okkar á milli og niðurstaðan var að fá Matvælastofnun til að rannsaka fiskana og sendum erindi strax til þeirra og brugðust þeir hratt við og svarið kom okkur þægilega á óvart.

Sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST skoðaði málið og hans skýrsla er eftirfarandi:

Hér er á ferðinni ormasýking í bleikjunni. Slík sníkjudýr (þráðormar, hárormar og bandormar) eru mjög algeng í villtum vatnafiski, en þó mikill árlegur munur á tíðni og sýkingingarmagni á milli vatnasvæða.
Þessir sníklar halda sig oftast innan í meltingarveginum; maga, skúflöngum og görn, en ef sýking er mikil leita þeir einnig út í kviðarholið og sýkja þá þunnildisvöðvann og jafnvel hold víðar á fiskinum. Það er einmitt það sem hefur átt sér stað í tilfelli ykkar.

Þú skalt alls ekki kippa þér upp við þessa „upplifun“, þó hún geti verið óþægileg svona við „fyrstu sýn.“  Sníkjudýr í meltingarvegi finnast nánast í öllum vatnafiskum, en yfirleitt halda þau sig inni í meltingarveginum og þá verður enginn var við þau þegar gert er að fiskinum. Í ykkar tilfelli er sýking komin á nokkuð hátt stig og þá sækir ormurinn út í holdið. Þessi sníkjudýr eru t.d. samsvarandi hringormi í villtum þorski, og algjörlega hættulaust. Fiskarnir lifa yfirleitt „í sátt og samlyndi“ við þessi sníkjudýr og þau hafa ekki nein teljandi áhrif á vöxt og viðgang.

Niðurstaðan var betri en við áttum von á í þetta sinn sem betur fer en auðvitað eru allir veiðimenn mjög óttaslegnir vegna þeirrar hættu sem allir vita að fylgir laxeldinu á Íslandi. Laxeldi sem við vitum að er tikkandi tímasprengja og mun eyða villtum stofni í veiðiám á Íslandi eins og í Noregi.“ Segja veiðimenn um veiðar á Vestfjörðum.

Ljósmynd/m. leyfi veiðimanna á vestfjörðum

Stangveiði – Veiðin.is · Lesa meira