Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir skrifar / 06.09.2021 kl. 15:00
Valdimar Heiðar Valsson er nýr skólastjóri Hlíðarskóla við Skjaldarvík. Hann er mikill stangveiðimaður og ætlar að flétta kennslu í fluguhnýtingum saman við ýmis önnur fög.
„Fræðslan verður í formi kynningarmyndbanda, fyrirlestra og efnis af internetinu. Til að mynda verður vatnakerfið í ám og vötnum rannsakað og fræðst um hvað er að gerast undir yfirborðinu þegar lirfur og flugur eru að klekjast. Tekið verður fyrir ákveðið verkefni í hverri kennslustund. Hugað verður að lífsferli flugunnar frá lirfum og þangað til þær klekjast út sem flugur. Við líkjum eftir hverju stigi og tökum hvert ferli fyrir sig og lærum um það. Verkefnið okkar er að hnýta flugur sem eru sambærilegar. Alltaf verður reynt að líkja eftir því æti sem er undir yfirborðinu. Þetta er því jafnframt kennsla í náttúrufræði,“ segir Valdimar í samtali við Akureyri.net.
En hvernig kviknaði hugmyndin?
„Áður en ég tek við skólastjórastöðunni þá hitti ég strák við Ljósavatn, sem er nemandi hér, og við fórum að spjalla á meðan við vorum að veiða. Svo æxlast það þannig að ég er ráðinn hingað sem skólastjóri og þá fer ég strax að hugsa um áhugann sem þessi drengur hafði á veiði. Ég vissi að ef ég gæti fléttað áhugamálið hans við nám að þá fyndist honum ábyggilegra skemmtilegra að læra.“
Það kom svo í ljós þegar hann hitti alla nemendur skólans að þrír í viðbót höfðu mikinn áhuga á veiði og fluguhnýtingum. „Þeir nemendur hafa verið að koma með fluguboxin sín í skólann og sýna mér og það er rosalega gaman að deila áhugamáli með nemendum sínum.”
Rífum niður alla múra
Í Hlíðarskóla er pláss fyrir 20 nemendur. Skólinn er rekinn af Akureyrarbæ og ætlaður fyrir börn sem glíma við einhverskonar vanda í skólakerfinu. Flóra nemenda er breið en þau eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið að finna sig í skólakerfinu og í sínum heimaskóla. Þegar reynt hefur verið til þrautar að finna lausnir í þeirra heimaskólum, fara sum barnanna í Hlíðarskóla. „Stundum þurfa þau bara að skipta um umhverfi, stilla kompásinn upp á nýtt og reyna svo aftur í sínum heimaskóla. Oft hefur þetta mikið með vanlíðan að gera hjá einstaklingnum og við vinnum dálítið í því að komast að rót vandans því það er dálítið erfitt fyrir barn að læra ef því líður illa og fyrir því geta verið ótal ástæður. Við erum með öflugt teymi sem vinnur að bættri líðan barnanna og síðan erum við með foreldravinnu og vinnum náið með þeim. Það er alltaf markmiðið hjá okkur í Hlíðarskóla að koma nemandanum á beinu brautina svo hann geti farið aftur í sinn heimaskóla.”
Valdimar bætir við: „Það sem mér finnst áhugavert við nám er að það er hægt að fara svo margar leiðir, möguleikarnir eru endalausir ef maður er bara nógu frjór í hugsun. Ég er svo heppinn að hafa alveg ótrúlega gott starfsfólk með mér í Hlíðarskóla og við deilum þeirri sýn að nálgast nám á eins fjölbreyttan hátt og hægt er. Ég sagði mínu starfsfólki fyrsta daginn sem ég hitti þau að við myndum rífa niður alla múra og leita allra leiða til að vekja áhuga nemandans á námi og það finnst mér við vera að gera. Við erum líka með nokkrar aðrar hugmyndir sem eru í vinnslu þannig að við erum rétt að byrja.“
Hvað eru flugurnar margar?
Valdimar segir að nám þurfi ekki endilega að vera kennt á bókina og enn séu margir kennarar of fastir í því. Sumir nemendur glíma við námsörðugleika og eiga erfitt með að finna hvatann til að læra. Þá er gott að leitað sé annarra leiða í kennslunni til að fá tilbreytingu og annan vinkil á námið. Gera áhugamál þeirra t.d. að námsefni, hvort sem það er veiði, íþróttir eða eitthvað annað. „Það er miklu meira spennandi að hnýta fimm laxaflugur og margfalda síðan hvað maður væri kominn með margar laxaflugur eftir hvert skipti en sitja með bók og læra fimm sinnum töfluna.“
Valdimar fór að velta fyrir sér hvernig hægt væri að hrinda hugmyndinni í framkvæmd því það er kostnaðarsamt að koma upp aðstöðu til fluguhnýtinga. Hann ákvað að biðla til meðlima veiðisamfélags á Facebook sem kallast „Veiðidellan er frábær“. Þar sagði hann frá því að hann væri ný tekinn við sem skólastjóri Hlíðarskóla og væri með hugmynd um að nálgast kennsluna á öðruvísi hátt – með fluguhnýtingum. En það væri gríðarlega dýrt að koma upp aðstöðunni og skólinn hefði ekki bolmagn til að kaupa búnaðinn. Ef einhver ætti dót sem safnaði ryki, þá yrði hann mjög þakklátur ef skólinn gæti fengið að nýta það.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það eru ótrúlega margir sem eru búnir að gefa okkur fullt af dóti; hnýtingarefni, væsa, tæki og tól. Það liggja mikil verðmæti í þessum gjöfum, tugir, jafnvel hundruð þúsunda. Við verðum með flotta aðstöðu til fluguhnýtinga í vetur og mér finnst alveg frábært að skólinn geti boðið upp á hana.“
Hnýta í vetur – veiða í vor
Valdimar vill koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra sem létu þetta verkefni verða að veruleika.
„Við munum nú byrja á því að setja upp aðstöðuna. Það þarf að byrja á að flokka og merkja búnaðinn. Þar mun reyna á samskipti, samvinnu og skipulag. Þetta er líka lífsleikni því allir þurfa að vinna saman.“
Fluguhnýtingar er valfag. Hægt er að velja í hverja viku fyrir sig. Í fyrsta tíma eru skráðir fjórir af þeim sautján nemendum sem eru í skólanum, svo það gæti bæst í hópinn. Það verður hnýtt í allan vetur, alls konar gerðir af flugum t.d. púpur, votflugur, straumflugur og laxaflugur og nemendur læra að nota réttu handtökin þegar kemur að fluguhnýtingum.
Markmiðið er svo að fara í veiðiferð í vor. Þá spreyta þau sig með flugurnar sem þau hafa hnýtt um veturinn.
Valdimar er fæddur á Akureyri en ólst upp á Hauganesi. Þar lék hann sér mikið í fótbolta og eyddi löngum stundum við veiðar á bryggjunni. Veiðin er honum í blóð borin og hefur alltaf verið eitt af hans aðal áhugamálum. Hann býr nú á Akureyri ásamt sambýliskonu sinni og eiga þau þrár dætur.
Valdimar starfaði á meðferðarheimilinu á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit í 11 ár. Heimilið var fyrir stúlkur sem voru langt leiddar vegna vímuefnaneyslu. Hann hefur því, auk kennsluréttinda, mikla þekkingu og reynslu af að hjálpa einstaklingum sem þurfa að takast á við erfiðar áskoranir. Þetta er þó í fyrsta skipti sem hann stígur inn í grunnskóla sem starfsmaður og er að læra allt mjög hratt. Hann brennur fyrir að vinna með krökkum í vanda og er spenntur fyrir vetrinum í Hlíðarskóla.
Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson
Frétt fengin með leyfi á Akureyri.net