Hvernig verður veiðisumarið?
„Mér líst bara nokkuð vel á komandi veiðisumar og er algerlega farin að telja niður. Við hjónin erum búin að sækja um í ánum innan Reykjavíkursvæðisins, þ.e. Ellliðaánum, Korpu og Leirvogsá. Við bíðum enn eftir að sjá hvort við fáum úthlutað. Nú svo eru það að sjálfsögðu kvennaferðirnar sem enn bætir í hjá mér á hverju ári. Nú er stefnan að fara í nýja slíka í Ytri-Rangá í ágúst. Er mjög spennt fyrir því þar sem ég hef aldrei veitt í þeirri á. Ég var smá stund að fá leyfi frá Bóndanum fyrir þeirri ferð en útivistarleyfið fékkst að lokum. Nú ekki sleppir maður kvennaferðinni í Veiðivötn né þá kvennaferðunum í Langá. Það munu síðan detta eitthvað meira inn þegar líða fer að sumri.
Ég hef fulla trú á því að þetta sumar verði bara gott, erum við veiðimenn ekki alltaf bjartsýn á þessum tíma. Alla vega ætti að vera nægur snjór í fjöllunum og á hálendinu til að halda eitthvað í vatnsstöðuna. Nú er bara að bíða eftir að snjóa leysir og drífa sig út með stöngina og æfa sig og þá sérstaklega með tvíhenduna fyrir Ytri-Rangárferðina“.
Ljósmynd/María H. Magnúsdóttir
Veiðar · Lesa meira