Bleikjustofnum heimsins fer fækkandi og víðast hvar eru stofnstærðir að minnka. Á Íslandi og í Noregi benda veiðitölur til mikils samdráttar í stofnum sjóbleikju. Á sama tíma eykst sókn í stangveiðar. Eitt skýrasta dæmið er bleikjustofninn í Eyjafjarðará, þar sem sókn jókst jafnt og þétt til ársins 2001 en eftir það verður algjört hrun í stofninum.Orsakir fækkunar bleikju eru hins vegar óljósar, þótt ekki skorti tilgátur. Á mörgum vatnasvæðum varð afgerandi breyting á tegundasamsetningu, samhliða fækkun bleikjunnar.
Félagasamtökin Bleikjan eru nýstofnuð velferðarsamtök um stofn bleikju á Íslandi. Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna bleikjunnar og finna orsök fækkunar, einkum í þeim stofnum sem teljast vera í útrýmingarhættu.
Bleikjustofnar Íslands hafa átt undir högg að sækja síðustu áratugi og almennt hefur stofnstærð staðbundinnar bleikju og sjóbleikju farið minnkandi.
Dæmi um samdrátt í staðbundnum bleikjustofni er stofninn í Mývatni en hrun var í bleikjustofninum árið 1988 og aftur árið 1997. Ljóst er að bleikjustofninn í Mývatni var orðinn verulega lítill og gilda enn strangar veiðitakmarkanir í vatninu. Veiði á sjóbleikju hefur sömuleiðis farið minnkandi í flestöllum landshlutum. Í gegnum árin hefur veiðin verið mest á Norðvesturlandi, en hefur nær stöðugt farið minnkandi síðustu 20 árin. Árið 2001 veiddust um 40.000 bleikjur á stöng á Íslandi en árið 2018 var heildarveiðin rúmlega 27.000 bleikjur.
Samtökin ætla að fræða almenning um stöðu bleikjustofnsins almennt og meta aðgerðir til að styrkja stöðu þeirra.
Stangveiðimenn og veiðiréttarhafar hafa brugðist við með því að minnka afföll bleikju vegna stangveiða, þ.e. víða hefur verið settur á strangur kvóti, til að halda veiðidauða í lágmarki.
Á sama tíma eru heimilar netaveiðar í sjó.Til eru sagnir um gríðarlega veiði á bleikju í þau net. Í sumum tilvikum gæti netaveiðin numið meiru en því sem veiðist á stöng á viðkomandi vatnasvæði.