„Veiðin gekk vel, við vissum ekki hverju við áttum von á,” segir Jónhann Ólafur Björnsson þegar spurðum um veiðiferð í Hraunsfjörð og bætti við; „Við vissum ekki hvernig hitastigið í vatninu var og hvort það væri yfir höfuð einhver von, en við fengum mjög góð ráð frá vini okkar Bjarna Júlíussyni.
Stærstu fiskarnir voru sjóbleikjur, 59 og 49 cm, mjög flottir fiskar sem veittu góða baráttu.
Svo hirtum við líka einn 39 cm sjóbirting sem veitti einnig skemmtilega baráttu og það er gaman að segja frá því að hann tók púpuna Rauð-Vín, sem ég hannaði og hef verið að selja í bleikju.
Við hittum Bjarna á veiðislóð og hann fór vandlega yfir með okkur hvernig við ættum að bera okkur að og gaf okkur öllum flugur, leynivopnið sitt.
Þetta vorum sem sagt ég, Jóhann Ólafur Björnsson og bestu vinir mínir Heiðar Þór Lárusson og Eyþór Helgi Pétursson. Við höfum stundað Hraunsfjörðinn mikið síðustu ár og er hann lang mest stundaða veiðisvæðið hjá okkur, við elskum að vera þarna í þessari flottu náttúru.
Við erum Bjarna þakklátir fyrir góð ráð og flugurnar sem hann gaf okkur, en við gáfum honum líka flugur úr okkar boxum. Svo er á dagskrá hjá okkur að veiða með honum þarna í sumar, sem er snilld því það þekkja þetta svæði fáir ef einhverjir jafnvel og hann, við gætum ekki fengið betri kennara!
Við veiddum samtals 5 en hirtum 3, svo vorum við mjúka heppnir með veður en það var 7°c hiti, smá vindur og sól í allan dag,” sagði Jóhann Ólafur enn fremur.
Ljósmynd/Eyþór Helgi Pétursson að kasta flugunni
Veiðar · Lesa meira