Í Eyjafjörð renna nokkrar af þekktustu sjóbleikjuám landsins. Þær helstu eru Ólafsfjarðará, Svarfaðardalsá, Hörgá og svo sjálf drottningin Eyjafjarðará. Lítið hefur verið um fréttir af ánum þetta sumar, þó lítillega af Eyjafjarðará og Hörgá. En er þá ekkert að frétta?
Byrjum á Ólafsfjarðará, því satt að segja þá er það hún sem stendur upp úr. Veiðin þar byrjaði rólega, mikið vatn var í júlí en menn þó að fá nokkra fiska við erfiðar aðstæður. Þegar sjatnaði í ánni snemma í ágúst, fór allt af stað og var veiðin oft um 20 – 30 bleikjur á stöng daglega. Nú á haustdögum er eðlilega ekki jafn mikið fjör en veiðin þó enn ásættanleg. Skráðar hafa verið 404 sjóbleikjur upp úr ánni sem má teljast gott miðað við 117 í fyrra.
Svarfaðardalsá var í miklum ham, vegna vatnavaxta, allt fram í ágúst. Þá fóru að berast sögur af fallegum fiski og að einkennandi fyrir veiðina væru fáir fiskar en stórir. Nú er hægt að kaupa hálfa daga í ánni og kvóti hefur verið minnkaður niður í 3 fiska. Skráðir hafa verið 115 fiskar en þess má geta að sumarið 2009 voru skráðar 1222 bleikjur og sumarið 2010 voru þær 1055. Þetta er eðlilega sláandi en þó spila inn vatnavextir sem lengi komu í veg fyrir ástundun manna.
Líkt og í Svarfaðardalsá var svipað og jafnvel verra ástand í Hörgá. Miklir vatnavextir spilltu veiði og var áin ekki almennilega veiðanleg fyrr en seint í ágúst. Hörgá er sú sjóbleikjuá í Eyjafirði sem sveiflast mest miðað við veðurfar. Henni er skipt í 7 svæði og ef þannig háttar að veður eru válynd geta öll svæðin orðið óveiðanleg, nema hugsanlega tvö þeirra, 4b og 5b. Skráðar hafa verið 112 bleikjur sem er mjög lítil veiði. Lokatalan 2020 var 324 og sumarið 2019 var hún 657.
Svo er það sjálf drottningin, Eyjafjarðará. Hún var í miklum ham fyrri part sumars og lengi óveiðanleg. En þegar aðstæður bötnuðu fór að lifna yfir veiðinni og þá aðallega á efsta svæðinu, því fimmta. Fréttir fóru að berast af stóru bleikjunum, sem oft eru kallaðar “kusur”, en ávallt sömu menn þar á ferð. Varla nokkuð heyrðist frá mönnum um veiði á neðri svæðunum, þó við og við um væna sjóbirtinga sem voru að veiðast á svæði 0 og 1. Nú er tími sjóbirtingsins í ánni og það er hann sem heldur veiðinni uppi, en ein og ein bleikja veiðist þó. Skráðar hafa verið 138 bleikjur, sem er hrein hörmung. Allt sumarið 2018 voru skráðar 837 bleikjur og sumarið 2019 voru þær 671. Á sama tíma hafa verið skráðir 289 sjóbirtingar/urriðar sem að stórum hluta veiddust í vorveiðinni í apríl og maí, samtals 93 stk. Þessar tölur benda til þess að friðun og breytingar á veiðifyrirkomulagi í ánni hafi ekki skilað því sem vænst var.
Allir stangveiðimenn, sem stundað hafa sjóbleikjuveiði, vita að stofninn er á undanhaldi. Hvað því veldur hefur verið erfitt að fullyrða. Það helsta sem nefnt er eru breytingar í náttúrunni, ofveiði, sand- og malartekja og samkeppni við aðrar fisktegundir. Einnig hefur netaveiði verið nefnd. Undanfarið hafa reglur í sambandi við kvóta í eyfirsku ánum breyst, loksins á að reyna að koma í veg fyrir algjört hrun. Það breytist vart mikið með þessari einu aðgerð, það þarf meira til. Stöndum saman og björgum sjóbleikjustofninum!
Högni Harðarson tók saman