Rótgróin hefð er komin á kvennaferðir í veiði. Harpa Hlín Þórðardóttir sem er rekstraraðili Ytri Rangár hefur skipulagt slíkar ferðir í rúman áratug. Eftir að hún og Stefán Sigurðsson, maðurinn hennar tóku að sér Ytri Rangá hefur fjölgað í þessum ferðum enda margar stangir í Ytri. Þannig voru tvær slíkar í sumar í Rangárþing og tóku tugir kvenna þátt í hvorri ferð.
Nokkru norðar og í leit að silungi fóru ríflega tuttugu konur í Veiðivötn á lokadögum þar í ágúst. Helga Gísladóttir hefur skipulagt slíka ferð á hverju sumri og segir hún eftirspurnina stöðuga og góða. „Vissulega er þetta fastur kjarni en svo koma vinkonur og vinkonur þeirra, þannig að við höfum alltaf fyllt þessar ferðir,“ upplýsir Helga Gísladóttir í samtali við Sporðaköst.
Hópurinn sem fór í Veiðivötn fyrr í mánuðinum. Myndin er tekin rétt áður en þær skelltu sér í vöðlurnar og fóru að veiða. Ljósmynd/Helga Gísla
mbl.is – Veiði · Lesa meira