Útlit gott og stefnir í spennandi opnanir

Mars hef­ur verið óvenju mild­ur og nán­ast gert til­kall til þess að vera hluti af vor­inu. Veður­spá er enn á sömu nót­um. Milt áfram og frek­ar hlýtt. Nú þegar níu dag­ar eru í að sjó­birt­ingsveiðin hefj­ist eru að teikn­ast upp afar spenn­andi skil­yrði.

Snjó­laust á lág­lendi og árn­ar í góðu vatni. Sporðaköst tóku stöðuna hjá leigu­tök­um Eld­vatns í Meðallandi og Tungufljóts. Erl­ing­ur Hann­es­son einn af leigu­tök­um Eld­vatns seg­ist orðinn mjög spennt­ur að opna. „Áin lít­ur vel út og marg­ir farn­ir að titra af spenn­ingi,“ svaraði Elli aðspurður um út­litið.

Svona leit Þórðarvörðuhylur í Eldvatni út í morgun. Sjálfsagt fá einhverjir vatn í munninn við að sjá þetta. Aðeins frostgrámi við ána en ekkert sem dægursveifla í hita vinnur ekki á. Ljósmynd/Jón Hrafn Karlsson

mbl.is – Veiði · Lesa meira