Í vikunni var ansi skemmtileg kvöldstund í Bókabúð Sölku við Hverfisgötu þar sem goðsögnin Árni Baldursson var mættur til að segja nokkrar æsispennandi og svakalegar sögur í tilefni af útgáfu bókar hans, Í veiði með Árna Bald.
Margt var um manninn og fór vel á með gestum sem komu bæði til að hlýða á Árna og fá áritaða bók af sögumanninum sjálfum. Skemmst er frá því að segja að Árni stóð undir væntingum og gott betur enda hefur hann lent í ýmsu í veiðiferðum sínum. Hann rifjaði meðal annars upp sögur þar sem hann skvetti hlandi á aðalsmenn, sprenghlægilegan misskilning um að vera geita-…, já hvað getum við sagt „geitavinur“ og það að hafa verið misnotaður af hvorki meira né minna en draug. Þetta var náttúrulega allt saman drepfyndið og það var mikið hlegið. Einn gesturinn sagði við mig að það væri bara einn svona maður til í heiminum og skellihló. Allt var þetta hin mesta skemmtun og hláturinn og brosin voru á hverju andliti.
Sjálfum fannst Árna þetta vera virkilega vel heppnað kvöld og hlakkar til fleiri ævintýra til að fylla jafnvel aðra svona bók, Hver veit?
En fyrir þá sem ekki komust á þennan skemmtilega viðburð í ösinni fyrir jólin má minna á að bókin sjálf, Í veiði með Árna Bald, fæst að sjálfsögðu í bókabúð Sölku og nú í öllum helstu búðum fyrir jól.
Bókin fær góðar viðtökur
Ljósmynd/Árni Bald að árita bókina
Veiðar · Lesa meira