Ég er sennilega ekki nema svona meðal laxveiðimaður, þó mér hafi nú áskotnast að veiða í mörgum af betri laxveiðiám landsins. Nú í dag lætur maður sér það duga að dreyma um laxveiði í fínu ánum. Á þeim tíma þegar ég hafði nokkuð gaman af laxveiðinni fór ég víða um, fyrst með föður mínum og svo með vinum. Laxveiðiár eins t.d. Laxá í Aðaldal, Miðfjarðará, Ytri-Rangá, Víðidalsá, Blanda og Hofsá voru heimsóttar. Það var í Miðfirðinum sem ég fékk maríulaxinn minn, í Efri-Hlaupum í Austurá. Þar var ég með föður mínum, í einhverju tannlæknaholli. Það er akkúrat Austurá sem er drauma veiðisvæðið mitt.
Flestir laxveiðimenn þekkja það mikla mannvirki sem byggt var á sínum tíma í Kambsfoss í Austurá. Þetta gerði það að verkum að lax gengur nú alla leið upp að Valfossi og eru á því svæði margir skemmtilegir veiðistaðir. Fyrir neðan Kambsfoss tekur við svokallaða Austurár gljúfur, sem er himnaríki líkast. Þar rekur hvern veiðistaðinn annan en þeir sem eru helst í minningunni eru Klettpollur (45) sem er ofarlega, stutt fyrir neðan fossinn, Myrkhylur (42), Brúnkuskurðspollur (37) og Laxpollur (35). Á öllum þessum veiðistöðum hef ég lent í ævintýrum.
Í sömu ferð og þegar ég landaði maríulaxinum mínum, náði ég laxi úr Klettpolli og þar lenti ég í hörkuveiði með þýskum vinum mínum árið 2006. Einn þeirra, Werner að nafni, fékk þá einnig 16 punda hrygnu í Myrkhyl sem ég háfaði eftir mikinn eltingarleik. Eitt sinn fékk ég svo það hlutverk að leiðsegja Englendingi sem hafði fengið lítið í ánni og var orðinn vonlítill, enda bara ein vakt eftir fyrir flugið heim. Hann átti Austurá neðan Kambsfoss og ég vissi nákvæmlega hvert ég ætlaði með hann. Við lögðum bílnum stutt frá veiðistaðnum Kerlingu og löbbuðum upp í Brúnkuskurðspoll. Það er stutt frá því að segja en þarna setti hann í þrjá smálaxa og landaði tveimur. Hann var í skýjunum en þetta átti bara eftir að verða betra. Fljótlega eftir að við komum niður að Laxpolli setti hann í smálax og landaði eftir snarpa viðureign. Svo gerðist lítið um stund og hann vildi hvíla sig og rétti mér stöngina. Ég varð fljótlega var ofarlega í hylnum, þungt hökk og það vakti áhuga Englendingsins. Með nýja flugu að vopni lagði hann til atlögu. Í þriðja kasti tók laxinn og rauk niður hylinn og fyrir stein. Línan var flækt og ég hikaði ekki að vaða úti til að losa hana. Það tókst, fjörugur laxinn dansaði smástund um hylinn en að lokum hafði Englendingurinn betur og landaði 13 punda hængi.
Ok, ég viðurkenni það! Mig langar mikið aftur sama hvað það kostar