Flestir stangveiðimenn verða fyrir þeirri leiðinlegu lífsreynslu, að eigin mati, að tína afætur af önglinum í laxveiði. Þeir sveifla þeim oft á land með ólundarsvip eða rífa þær af í offorsi og skömm sem veldur ósjaldan dauða seiðanna. Fáir veiðimenn gera sér grein fyrir að þarna eru oft á ferðinni kynþroska hængsseiði sem meira býr í en virðist og hafa mikið gildi fyrir laxastofninn. Þannig vill til að þessi litlu grey taka virkan þátt í hrygningu fullorðinna laxa og geta margir smáir laxastofnar m.a. þakkað þessum litlu hængsseiðum tilvist sína. Menn hljóta að spyrja sig hvernig í ósköpunum þau geta komið genunum sínum áfram þegar þau eiga í höggi við þúsund sinnum þyngri sjógengna hænga.
Tilvist kynþroska hængsseiða hefur verið þekkt lengi. Snemma á 19. öld var gerð tilraun sem sýndi að þau voru hæf til að frjóvga hrogn sem svo klöktust með eðlilegum hætti. Rannsóknir frá miðri 20. öld sýndu ekki aðeins að kynþroska hængsseiði væru algeng hjá laxastofnum, heldur einnig að hlutfall þeirra væri hátt; á Bretlandseyjum yfir 50%, um 18% í sænskum ám og frá 6 – 60% í norskum ám (Elliot MJ. 1994“Quantitative Ecology and the Brown trout” Oxford University Press). Hér á landi hafa rannsóknir sýnt að hlutföllin séu á bilinu 17 – 58%.
Öfugt við það sem við eigum að venjast, þ.e. að laxaseiði dvelji tvö til fimm ár í ánni, fari síðan í ferli sem kallast sjóþroskun “smoltun” og haldi svo til sjávar til að verða kynþroska, verður hluti þeirra kyrr í ánni án þess að fara nokkuð. Þessi seiði eru oftast mjög hraðvaxta og þekkt eru dæmi, í mjög frjósömum ám, um að hængsseiði nái því að verða kynþroska á sínu fyrsta ári. Yfirleitt þurfa þau þó að hafa náð eins árs aldri.
Þegar hrygning á sér stað eru það ekki einungis fullorðnu hængarnir sem leggja allt sitt í að koma genunum áfram. Kynþroska hængsseiði ferðast langa leið frá uppeldisstöðvum sínum til að missa ekki af fjörinu, þeir þefa upp hrygnurnar og eru til í slaginn. Þau bíða í skjóli steina í námunda við sjógengnu pörin og bíða færis til að skjótast að hrygnunni og losa svil yfir hrognin. Ósjaldan verða þau fyrir árás fullorðna hængsins og bit hans getur dregið þau til dauða.
Með erfðatækni hefur reynst mögulegt að rekja uppruna hrogna/seiða til foreldra og hún er notuð til að finna hlutfall þeirra hrogna sem eru frjóvguð af kynþroska hængsseiðum. Rannsóknir í Skotlandi sýna að frá 30 – 50% af frjóvguðum hrognum eiga kynþroska hængsseiði sem “föður”. Þessi hlutföll eru oftast í kringum 30% í Noregi og 15 – 20% í Svíþjóð. Talið er að hér á Íslandi sé þetta svipað og á Norðurlöndunum.
Hugsið ykkur því tvisvar um áður en þið kastið frá ykkur í offorsi svokallaðri “afætu”.
Friðþjófur Árnason. Skýrsla: “Kynþroska hængsseiði – mikilvægari en margur heldur.”(Án ártals).