Þriðji laxinn með eldisútlit veiddist í Vatnsdalsá í gær. Einn af þessum þremur hefur verið greindur og er staðfestur strokulax úr sjóeldiskví í Dýrafirði. Laxinn sem veiddist í gær og annar til bíða greiningar en útlit þessara fiska bendir sterklega til þess að þeir séu úr eldi.
„Æ, þetta kremur í manni hjartað. Hér eru veiðimenn sem veitt hafa þessa daga í tæplega þrjátíu ár og elska Vatnsdalinn. Náttúran, hreinleikinn og allt í kringum þetta skiptir þessa veiðimenn máli. Það er ömurlegt að svo gerist þetta. Á sama tíma og við erum að gera allt sem við getum til að hjálpa laxinum, finnst mér þessu tekið af nokkurri léttúð hjá þeim eftirlitsaðilum og stofnunum sem eiga að standa með okkur og laxinum,“ sagði Björn K. Rúnarsson, einn af leigutökum Vatnsdalsár, í samtali við Sporðaköst í morgun.
Eldislegi laxinn sem veiddist í Hnausastreng í gær. Sá þriðji sem veiðist þar. Einn hefur þegar verið greindur og er strokulax úr Dýrafirði. Ljósmynd/Vatnsdalsá
mbl.is – Veiði · Lesa meira