Það má sjá nokkuð af jákvæðum fréttum í vikutölum úr laxveiðinni, þó að ljóst sé að veiðisumarið verði undir meðallagi. Fyrst horfum við til Rangánna. Þar hefur verið góður og ákveðinn stígandi í veiði síðustu vikurnar. Á það við um bæði Eystri og Ytri, þó svo að sú síðarnefnda hafi skilað mun meiri veiði. Raunar var það svo að Ytri Rangá skilaði langmestu vikuveiðinni og fór yfir fjögur hundruð laxa. Þá er ekki síður ánægjulegt að sjá að mikið er um stórlax í aflanum og nánast daglega er landað löxum um og yfir níutíu sentímetra.
En það er fleira jákvætt. Árnar á Mýrunum eru að gefa góða veiði. Þar ber Haffjarðará höfuð og herðar yfir nágranna sína og hefur skilað í sumar 451 laxi á sínar sex stangir. Það er nákvæmlega sama tala og áin hafði gefið á sama tíma í fyrra. Mikið er af laxi í Haffjarðará. Hítará er einnig að gefa góða veiði og er komin yfir tölurnar frá í fyrra sem er eftirtektarvert á annars frekar rólegu Vesturlandi í sumar. Svo við klárum Mýrarnar þá er Straumfjarðará að skila mun minni veiði en í fyrra.
Þetta er hann Jamey þúsundkall Selig. Hann fékk viðurnefnið eftir að hafa landað þúsundasta laxinum í Ytri Rangá í vikunni. Daginn eftir landaði hann þessum 97 sentímetra laxi í veiðistaðnum Doktor. Ljósmynd/IO
mbl.is – Veiði · Lesa meira