Stjórn Veiðifélags Víðidalsár kom saman á fundi í gærkvöldi vegna strokulaxa í sjókvíum og mikilla áhyggja vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og menn óttast að eigi eftir að versna.
Nú þegar eru staðfestir fimm eldislaxar í Haukadalsá, segir í áskoruninni og samkvæmt heimildum Sporðakasta er lax sem veiddist í Miðfjarðará einnig staðfestur sem eldislax. Þó nokkrir laxar bíða greiningar.
Fleiri laxar hafa borist og síðast í gær veiddist eldislegur lax í Vatnsdalsá, og er það annar laxinn í sumar þar á bæ. Sá lax ásamt fleiri löxum sem veiðst hafa í Húnavatnssýslum eru á leið til Hafrannsóknastofnunar.
Stjórn Veiðifélags Víðidalsár sendi frá sér ályktun í kjölfar stjórnarfundarins í gær. Þar er gjörvallt Alþingi hvatt til dáða og sett fram beiðni um að sérlög fyrir sjókvíaeldisfyrirtæki verði felld brott og sett lög um sjókvíaeldi þar sem náttúra og lífríki landsins verði sett í öndvegi.
Bændur í Víðidal og eigendur lögbýla segja það ótækt að þurfa að standa í málaferlum við norska iðnrisa sem skráðir eru í kauphöll í Osló til að verja tilveru sína og náttúruauðlind sem nýtt hefur verið með sjálfbærum hætti kynslóðum saman.
Kafað í Faxabakka í Víðidalsá 2023. Stjórn Veiðifélags Víðidalsár skorar á stjórnvöld að hafa teymi kafara reiðubúið til að leita í Víðidalsá og öðrum ám landsins að strokulöxum. Ljósmynd/Eggert Skúlason
mbl.is – Veiði · Lesa meira