Samtals veiddust 28 laxar fyrstu dagana í Kjarrá og er það besta opnun síðan 2016, eins í Þverá. Bjartsýnustu menn áttu von á enn stærri opnun en 28 laxar er eitthvað sem allir eru í skýjunum með, að sögn Ingólfs Ásgeirssonar leigutaka.
Veiðin var jöfn flesta daga nema hvað aðeins einn fiskur veiddist í morgun, á síðustu vakt. Síðasta laxinn í opnuninni fékk Gími yfirleiðsögumaður, eða Hallgrímur Gunnarsson. Gími er lifandi goðsögn á fjallinu og hefur verið leiðsögumaður og yfirleiðsögumaður í 43 ár í Kjarrá. Hann og Ingólfur Ásgeirsson deildu stöng í opnuninni. Í morgun var för heitið í Runka þar sem sáust laxar í gær. Þar var engin stemming þannig að Gími taldi rétt að kíkja i Hornhyl. Hann kíkti í fluguboxið hjá Ingólfi og valdi flugu sem gaf vel um 1990 í Kjarrá. Fór hún vel við gömlu Sage stöngina og Hardy Marquis klassíska fluguhjólið.
Gími, leiðsögumaður í Kjarrá í 43 ár og í dag yfirleiðsögumaður á fjallinu. Hann fékk síðasta laxinn í opnuninni og fór vel á því. Hér er hann í Hornhyl. Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson
mbl.is – Veiði · Lesa meira