Með hófstillta von í brjósti byrjuðu veiðimenn snemma þann 18. júní í opnun Víðidalsár. Frétt Sporðakasta um möguleg rauð flögg á lofti í laxveiðinni fór illa ofan í menn með eggjum og beikoni. Það átti eftir að breytast fljótt og örugglega. Skemmst er frá því að segja að laxar veiddust á öllum svæði árinnar. Fyrsta laxinn fékk Rögnvaldur Guðmundsson klukkan 8:04 í Neðri Ármótum. Reyndist þar á ferð 86 sentímetra Víðidalsárhrygna. Spegilbjört og fögur. Stuttu síðar var sett í landað fiski í Kerinu í Fitjá. Annar fylgdi svo í kjölfarið. Á neðsta svæðinu fékkst einn lax í Faxabakka og sá fimmti kom á land á svæði tvö í veiðistaðnum Galtanesi. Samtals fimm laxar á fyrstu vaktinni. Engin rauð flögg í Víðidal.
Tekist á við fyrsta laxinn í Víðidalsá sumarið 2025. Rögnvaldur Guðmundsson með hann. 86 sentímetra hrygna kom á land. Ljósmynd/Sporðaköst
mbl.is – Veiði · Lesa meira