„Nú um helgina skellti ég mér í veiðiferð á Vestfirði ásamt Gissurkarli og Brynjari. Því miður blasti þar við okkur hörmungarástand,“ segir Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson í samtali.
Eldislax og hnúðlax út um allt. Við höfðum heyrt af slysasleppingu hjá Arctic Fish þar sem að fiskar um 80 cm (6-7 kg) höfðu líklega sloppið út.
Við veiddum 6 eldislaxa á örskömmum tíma, sem voru allir af þessari stærð. Þessir fiskar voru særðir, illa lúsaétnir og allir voru þeir annað hvort komnir upp í árnar eða að hanga í ósasvæðinu að undirbúa göngu. Ekki bara það, heldur sáum við óhemju af eldislöxum sem okkur tókst ekki að ná og þeir synda því frjálsir núna í þessum litlu og viðkvæmu ám.
Við sáum aldrei neinn frá þeim sem eiga að stunda eftirlit með þessu, engan frá Fiskistofu og engan frá sjókvíaeldisfyrirtækjunum. Það er sorglegt að segja frá því að á þessum stutta tíma tókst okkur að fanga fleiri eldislaxa en Fiskistofa hefur náð síðan þessir laxar sluppu.
Nú berast daglega fréttir af því að eldislaxar séu að veiðast í mörgum af þekktustu ám landsins og ekki sér fyrir endann á því.
Þetta er svo sorgleg staða og við erum að horfa á villta laxastofninn okkar erfðablandast, mengast og þurrkast út í beinni útsendingu.
Sjókvíaeldisiðnaðurinn, stjórnvöld og eftirlitsstofnanir axla ekki ábyrgð. Hver á þá að gera það?,“ sagði Elías ennfremur.
Flestir eldislaxarnir sem hafa veiðst eru 5 til 7 punda en fyrir nokkrum dögum veiddist 17 punda eldislax í Hvolsá í Dölum og er það stærsti laxinn á land í ánni í sumar.
Ljósmynd/Eldislax kominn á land Mynd/ Elías Pétur
Veiðar · Lesa meira