Sannkallaður risaslagur átti sér stað á stærsta vettvangi Víðidalsár í fyrradag. Þar tókust á einn af stærstu löxum árinnar og körfuboltagoðsögn úr Njarðvík. Maðurinn sem „reyndist ákveðinn banabiti nágranna okkar“ í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á vordögum 1991. Tilvitnunin er í heimasíðu Njarðvíkur, þar sem 50 ára afmæli Gunnars Örlygssonar var fagnað fyrir skemmstu.
En aftur í Dalsárós. Þau hjónin Gunnar og Guðrún Hildur Jóhannsdóttir eða Dunna áttu ósinn. „Það var lítið að gerast. Einhverjir fiskar en engin taka. Ég greip til þess ráðs sem ég geri stundum, að kveikja í hylnum. Óð yfir og tók Collie dog áltúbu og þverkastaði niður allan hylinn og dró hratt. Endurtók svo leikinn á leiðinni upp eftir. Þetta pirraði þá greinilega og nokkrir stukku. Ég óð svo yfir aftur og Dunna tók við,“ sagði Gunnar í samtali við Sporðaköst þegar hann var beðinn um að lýsa hvernig það vildi til að stærsta laxi sumarsins, til þessa var landaði í Víðidalsá.
Sá stærsti til þessa úr Víðidalsá. Mældur 102 sentímetrar. Þar með einn af þeim stærstu á Íslandi það sem af er sumri. Ljósmynd/Guðrún Hildur Jóhannsdóttir
mbl.is – Veiði · Lesa meira