Langadalsáin vatnslítil en náttúran stórkostsleg

„Hegrinn“ er grúppa sem hefur veitt saman í um það bil 20 ár og þar af 17 í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi,“ segir Máni Svavarsson og heldur afram; ,,Í upphafi vorum við að leita að fjögurra stanga „self catering“ á og Langadalsá uppfyllti öll skilyrði. Eftir tvö ár í frekar hrörlegu veiðihúsi var nýtt hús tekið í notkun sem er algerlega stórkostlegt; átta herbergi í svefnskála ásamt sér húsi með eldhúsi og borðstofu. Stór pallur með vöðlugeymslu og heitum potti.

Það tók ekki langan tíma fyrir okkur að verða ástfangnir af ánni og umhverfinu. Það segir sig sjálft að það góða við að koma ár eftir ár er hversu vel við lærum á ánna. Við þekkjum hana í litlu og miklu vatni og öllu þar á milli. Við höfum séð hvernig laxinn færir sig til upp og niður á veiðistöðum og jafnvel staldrar ekkert við á sumum þeirra eftir vatnsstöðu. Lítið vatn þýðir ekki endilega lítil veiði og öfugt.

Síðastliðin tvö ár hafa verið frekar erfið. Árið 2022 enduðum við með einn lax í ágætis vatni. Þetta árið enduðum við með tvo í minnsta rennsli sem við höfum séð. 
Það var mikið af laxi niðri við þjóðvegsbrú sem beið eftir því að leggja af stað. Við töldum sirka 30-50 en eflaust eru þeir fleiri. Þegar við fórum voru 7 laxar í bók og 6 af þeim tóku við þjóðvegsbrúnna. Við fengum einn þar og einn í Pokastreng og töldum að mestu líkurnar væru þessir þéttu strengir eftir þrengingar í ánni. Síðasta daginn sáum við lax í Skeggjastaðafljóti sem er mjög ofarlega í ánni en annars urðum við ekki varir við líf.

Við munum halda áfram að heimsækja drottninguna okkar og stöndum með henni í gegnum súrt og sætt. Þessi dalur er stórkostlegur og geymir ríka sögu. Þarna í gegn lá gamli þjóðvegurinn vestur áður en Steingrímsfjarðarheiðin tók við. Náttúran er stórkostleg, fjölmörg álftapör og smyrill á flugi. Í þetta skiptið rákumst við á yrðling og náðum gullfallegri mynd.

Allir í þessari grúppu veiða víða og með öðrum hópum jafnvel. En við erum allir sammála um að þetta sé túrinn sem við gerum minnstar væntingar til – en hlakkar mest til,“ segir Máni ennfremur

Veiðar · Lesa meira

Hólaá – Austurey