Fyrsti laxinn í Vatnsdalsá sást í Hólakvörn í gær. Björn K. Rúnarsson leigutaki var á útkíkki og sá fisk mættan á þennan dæmigerða vorstað. „Að sjá lax hér í maí er stórkostlegt,“ sagði Björn í samtali við Sporðaköst.
Björn fór aftur á útkíkk í dag. Vindur var á Hólakvörn svo þar var ekki hægt að skyggna. Álkan var vatnsmikil, en þar má oft sjá laxa snemma. Fyrir rælni skellti hann sér upp í Stekkjarfoss og eftir að hafa rýnt lengi ofan í hylinn og skoðað þrjá fiska sem hann var ekki sannfærður um að væru laxar, kom skyndilega einn silfurbjartur upp úr dýpinu. „Ég hef aldrei verið að kíkja eftir laxi svona snemma en þetta er alveg magnað. Þær fréttir sem maður er að heyra benda til þess að tveggja ára fiskurinn verði sterkur eins og margir hafa verið að búast við.“
Björn K. Rúnarsson kíkir í Stekkjarfoss, efst í Vatnsdalsá í dag. Eftir að hafa rýnt á þrjá fiska sem hann var ekki viss um, kom einn silfraður úr dýpinu. Ljósmynd/María
mbl.is – Veiði · Lesa meira