Þær lentu svo sannarlega í ævintýri vinkonurnar sem veiddu Stekkjarnefið í Stóru Laxá í gærmorgun. Birta Ósk Svansdóttir landaði sínum stærsta laxi til þessa og líkast til þeim stærsta sem veiðst hefur í Stóru í sumar.
„Við mættum vinkonurnar, ég og Anna Lea Friðriksdóttir upp í Stekkjarnef og leiðsögumaðurinn okkar, hann Hrafn Hauksson gaf okkur leiðbeiningar um hvernig við myndum best veiða staðinn. Svo fór hann að sinna öðrum veiðimönnum. Anna Lea setti fljótlega í fallegan sjóbirting sem við lönduðum. Sindri leiðsögumaður kíkti á okkur og sagði að þeir hefðu orðið varir við laxa aðeins ofar líka í sumar,“ sagði Birta Ósk í samtali við Sporðaköst. Hún rölti upp eftir á staðinn sem Sindri benti þeim á. Þegar laxinn tók var hún enn að vinna út línu til að ná á þann hluta sem henni fannst líklegastur. Laxinn hafði hins vegar ekki þolinmæði í að bíða eftir því og negldi tommu Sunrayinn strax. Þetta reyndist nýlegur hængur og líkast til gengið upp í gegnum Iðuna um svipað leiti og lögbann var sett á Stóru Laxármenn um veiðar þar.
Birta Ósk Svansdóttir með stórlaxinn í fanginu eftir æsilega viðureign sem stóð í klukkutíma og kortér. Ljósmynd/Anna Lea Friðriksdóttir
mbl.is – Veiði · Lesa meira