Laxinn reyndist 69% af hennar hæð

Þær lentu svo sann­ar­lega í æv­in­týri vin­kon­urn­ar sem veiddu Stekkj­ar­nefið í Stóru Laxá í gær­morg­un. Birta Ósk Svans­dótt­ir landaði sín­um stærsta laxi til þessa og lík­ast til þeim stærsta sem veiðst hef­ur í Stóru í sum­ar.

„Við mætt­um vin­kon­urn­ar, ég og Anna Lea Friðriks­dótt­ir upp í Stekkj­ar­nef og leiðsögumaður­inn okk­ar, hann Hrafn Hauks­son gaf okk­ur leiðbein­ing­ar um hvernig við mynd­um best veiða staðinn. Svo fór hann að sinna öðrum veiðimönn­um. Anna Lea setti fljót­lega í fal­leg­an sjó­birt­ing sem við lönduðum. Sindri leiðsögumaður kíkti á okk­ur og sagði að þeir hefðu orðið var­ir við laxa aðeins ofar líka í sum­ar,“ sagði Birta Ósk í sam­tali við Sporðaköst. Hún rölti upp eft­ir á staðinn sem Sindri benti þeim á. Þegar lax­inn tók var hún enn að vinna út línu til að ná á þann hluta sem henni fannst lík­leg­ast­ur. Lax­inn hafði hins veg­ar ekki þol­in­mæði í að bíða eft­ir því og negldi tommu Sunray­inn strax. Þetta reynd­ist ný­leg­ur hæng­ur og lík­ast til gengið upp í gegn­um Iðuna um svipað leiti og lög­bann var sett á Stóru Laxár­menn um veiðar þar.

Birta Ósk Svansdóttir með stórlaxinn í fanginu eftir æsilega viðureign sem stóð í klukkutíma og kortér. Ljósmynd/Anna Lea Friðriksdóttir

mbl.is – Veiði · Lesa meira