Margar laxveiðiár voru að opna síðasta sólarhringinn. Langá, Laxá í Aðaldal, Eystri og Ytri Rangá, Vatnsdalsá, Elliðaár og Haffjarðará. Hér er yfirferð yfir það helsta.
Níu laxar veiddust í dag á opnunardegi í Eystri Rangá. Góð dreifing var á fiskinum og vart varð við lax á flestum svæðum. Gunnar Skúli Guðjónsson, yfirleiðsögumaður var mjög sáttur við daginn og sagði laxinn í góðu standi og sérdeilis þykkur og flottur. Allir laxarnir voru tveggja ára fiskar á bilinu 78 upp í 90 sentímetrar.
Fyrsta laxinn í Eystri Rangá sumarið 2025 veiddi Björn Hlynur Pétursson á Rangárvaði. Raunar bætti hann um betur og landaði þremur löxum í dag, þar af 80 sentímetra hæng, sem mynd sýnir hversu þykkur og vel haldinn sá lax er.
Björn Hlynur Pétursson fékk fyrsta laxinn í Eystri Rangá sumarið 2025. Hann fékk alls þrjá laxa þar í dag, á opnunardegi. Ljósmynd/Björn Hlynur
mbl.is – Veiði · Lesa meira