Mok í Ytri og Þverá/Kjarrá yfir þúsund

Lang­besta veiðin í nýliðinni veiðiviku var í Ytri Rangá. Stöðugur stíg­andi hef­ur verið í veiðinni og fór viku­veiðin yfir 500 laxa. Ytri er á svipuðu róli og í fyrra þegar veiðitöl­ur eru skoðaðar. Þá er Þverá/​Kjar­rá að standa upp úr þegar kem­ur að Vest­ur­landi og fór hún yfir þúsund laxa í vik­unni og skilaði rétt tæp­lega 200 laxa veiði.

Jökla er kom­in á yf­ir­fall þannig að þar hæg­ist á þó að hún sé í fjórða sæti á landsvísu þegar kem­ur að fjölda laxa.

Norðurá átti sína bestu viku í sum­ar með 146 laxa veiði. Það er sér­stakt að henn­ar besta vika komi á þess­um tíma sum­ars.

Veiðin róaðist nokkuð á Norðaust­ur­horn­inu og eru árn­ar þar komn­ar aðeins und­ir í sam­an­b­urði við sama tíma í fyrra.

Ein­ung­is sex ár voru með meira en hundrað laxa veiði í síðustu viku. Það seg­ir meira en mörg orð um stöðuna þetta sum­arið. Næsti stóri straum­ur og vænt­an­lega sá síðasti sem menn geta gert sér von­ir um að skili ein­hverju magni af löx­um er eft­ir fjóra daga, eða þann 11. ág­úst.

Eystri Rangá mun án efa fara yfir þúsund laxa í vik­unni sem nú er að hefjast. Vand­séð er hvaða aðrar ár ná fjög­urra stafa tölu. Selá í Vopnafirði er þar lík­leg­ust.

Veiðin í Ytri-Rangá hefur verið stígandi í hverri viku og náði hámarki í nýliðinni viku þá veiddust 516 laxar í ánni. Ljósmynd/IO

mbl.is – Veiði · Lesa meira