Langbesta veiðin í nýliðinni veiðiviku var í Ytri Rangá. Stöðugur stígandi hefur verið í veiðinni og fór vikuveiðin yfir 500 laxa. Ytri er á svipuðu róli og í fyrra þegar veiðitölur eru skoðaðar. Þá er Þverá/Kjarrá að standa upp úr þegar kemur að Vesturlandi og fór hún yfir þúsund laxa í vikunni og skilaði rétt tæplega 200 laxa veiði.
Jökla er komin á yfirfall þannig að þar hægist á þó að hún sé í fjórða sæti á landsvísu þegar kemur að fjölda laxa.
Norðurá átti sína bestu viku í sumar með 146 laxa veiði. Það er sérstakt að hennar besta vika komi á þessum tíma sumars.
Veiðin róaðist nokkuð á Norðausturhorninu og eru árnar þar komnar aðeins undir í samanburði við sama tíma í fyrra.
Frá Ytri Rangá, en veiðin þar hefur verið stígandi í hverri viku og náði hámarki í nýliðinni viku þá veiddust 516 laxar í ánni. Ljósmynd/IO