Langbesta veiðin í nýliðinni veiðiviku var í Ytri Rangá. Stöðugur stígandi hefur verið í veiðinni og fór vikuveiðin yfir 500 laxa. Ytri er á svipuðu róli og í fyrra þegar veiðitölur eru skoðaðar. Þá er Þverá/Kjarrá að standa upp úr þegar kemur að Vesturlandi og fór hún yfir þúsund laxa í vikunni og skilaði rétt tæplega 200 laxa veiði.
Jökla er komin á yfirfall þannig að þar hægist á þó að hún sé í fjórða sæti á landsvísu þegar kemur að fjölda laxa.
Norðurá átti sína bestu viku í sumar með 146 laxa veiði. Það er sérstakt að hennar besta vika komi á þessum tíma sumars.
Veiðin róaðist nokkuð á Norðausturhorninu og eru árnar þar komnar aðeins undir í samanburði við sama tíma í fyrra.
Einungis sex ár voru með meira en hundrað laxa veiði í síðustu viku. Það segir meira en mörg orð um stöðuna þetta sumarið. Næsti stóri straumur og væntanlega sá síðasti sem menn geta gert sér vonir um að skili einhverju magni af löxum er eftir fjóra daga, eða þann 11. ágúst.
Eystri Rangá mun án efa fara yfir þúsund laxa í vikunni sem nú er að hefjast. Vandséð er hvaða aðrar ár ná fjögurra stafa tölu. Selá í Vopnafirði er þar líklegust.
Veiðin í Ytri-Rangá hefur verið stígandi í hverri viku og náði hámarki í nýliðinni viku þá veiddust 516 laxar í ánni. Ljósmynd/IO
mbl.is – Veiði · Lesa meira