Nánast daglega og jafnvel oft á dag upp á síðkastið hafa verið að koma á land stórlaxar um og yfir hundrað sentímetra. Sjötti fiskurinn af þeirri stærðargráðu kom á land í Miðfjarðará í gærkvöldi þegar Theódór Friðjónsson setti í og landaði einum slíkum í Kotálum í Austurá í Miðfirði á föstudagskvöld. Laxinn tók Þýska Snældu og var tekið vídeó af mælingunni. Hún er staðfest og laxinn mældist 100 sentímetrar sléttir. Teddi er tannlæknir og eins og margir úr þeirri stétt er öflugur í laxveiðinni og er þetta fjórði hundraðkallinn hans á ferlinum. „Þetta var búin að vera hálfgerð vonbrigðavakt. Við áttum þristinn og það var þoka og einhvern veginn ekkert að gerast. Það var skítakuldi og við hreyfðum hvergi fisk. Við vorum alveg við það að gefast upp. En ég trekkti mig upp í þetta og ákvað að taka nokkur köst í lokin,“ sagði Teddi, sem einhverjir vilja fara kalla Tedda tönn.
Grenjandi rigning, skítkalt, þoka og tregveiði. Þá kom þessi. 100 sentímetrar í Kotálum. Theódór segist hafa þurft á því að halda að landa þessum. Ljósmynd/Viðar Jónasson
mbl.is – Veiði · Lesa meira