Ögurstund fyrir villta laxinn

Villti laxinn í Norður-Atlantshafi stendur frammi fyrir stærstu áskorun sinni í sögunni. Stofnar hafa hrunið víða um heim, og Ísland er engin undantekning. Þrátt fyrir þetta virðast stjórnvöld keppast við að setja upp hindranir og ógnir fyrir villta laxastofna. Sjókvíaeldið virðist komast upp með hvaða rugl sem er, en það er ekki eina ógnin. Hvammsvirkjun er ein af þessum ógnum sem nú á að keyra áfram. Það er ekki vinsæl skoðun á Íslandi í dag að vera á móti Hvammsvirkjun, en það er nauðsynlegt að halda á lofti hvaða þýðingu þessi virkjun hefur fyrir villta laxinn.

Í Þjórsá lifir stærsti villti laxastofn Íslands – einstakur stofn á heimsvísu. Hvammsvirkjun mun gjörbreyta búsvæði laxins, eyðileggja árfarveg og hindra för göngufiska, ekki aðeins laxa, heldur einnig sjóbirtings, urriða og bleikju. Þetta á ekki aðeins við um för fiska upp vatnakerfið, heldur líka fyrir seiðin þegar þau eru á leiðinni til sjávar. Reynslan frá öðrum löndum sýnir svart á hvítu hver áhrif slíkrar stíflugerðar eru: Í Þýskalandi hefur villtur lax verið þurrkaður út vegna virkjana sem loka fyrir náttúrulega för hans. Þar voru áður stofnar sem töldu hundruðir þúsunda laxa. Er það virkilega stefnan hér á landi?

Að breyta leikreglum, í staðinn fyrir að spila leikinn betur.
Hvammsvirkjun hefur þegar verið stöðvuð tvisvar með lögum. Fyrst af úrskurðarnefnd og síðan með dóm Héraðsdóms. Þar með var staðfest að framkvæmdin stæðist ekki lagalegar kröfur. Í réttarríki ætti málið þar með að vera úr sögunni. En nú ætla stjórnvöld að breyta lögunum einfaldlega til að fá sinn vilja fram. Það á semsagt að breyta leikreglum í staðinn fyrir að spila leikinn betur.

Í nýju frumvarpi er því haldið fram að allar virkjanir í orkunýtingarflokki rammaáætlunar teljist „almannaheill“. Þetta þýðir að pólitísk ákvörðun trompar allar vísindalegar, lagalegar og umhverfislegar forsendur. Í raun er verið að senda þau skilaboð að náttúran eigi sér enga málsvara ef framkvæmdavaldið ákveður að ráðast á hana.

Það sem er afar erfitt í umræðunni er að málið er sett upp sem afarkostir. Annað hvort styður þú Hvammsvirkjun, eða ert á móti hagvexti og framförum. Málið er bara því miður ekki svo einfalt. Það virðist aldrei rata inn í umræðuna hvort hægt sé að breyta þessum áformum þannig að villtir fiskistofnar hljóti ekki skaða af. Heldur er þetta sett upp eins og Hvammsvirkjun eins og hún er teiknuð upp, með öllum sínum áhættum sé eina svarið.

Villtur lax – engin takmörk fyrir fórnir?
Við höfum séð þetta áður. Þegar vald og fjármagn mætast verður náttúran alltaf undir. Hvammsvirkjun er aðeins byrjunin. Ef þessi lög ná fram að ganga, hver er þá næstur? Hvaða náttúruverndarákvæði verða rifin úr lögum næst þegar stórfyrirtæki eða stjórnmálamenn rekast á „hindranir“ í formi laga og dóma?

Villtum laxi á Íslandi hefur fækkað mikið, líkt eins og annar staðar í heiminum. Hins vegar er þróunin sem betur fer hægari hér, og er enn hægt að segja að töluverð laxgengd sé á Íslandi. Ef að stofninum í Þjórsá verður fórnað, þá er það 5-10% heildarfjölda laxa á Íslandi, og það á tíma þar sem laxinn þarf verndun meira en nokkru sinni fyrr.

Villti laxinn er þegar í neyð. Hann þarf á vernd okkar að halda – ekki einungis fyrir komandi kynslóðir heldur fyrir sjálfa náttúruna. Að fórna stærsta laxastofni Íslands fyrir pólitíska hagsmuni er siðferðislegt hneyksli sem komandi kynslóðir munu dæma okkur fyrir.

Þetta er ekki spurning um að vera á móti hagvexti og framförum. Þetta er spurning um að sinna skyldu okkar, að skila náttúrunni í jafn góðu eða betra ástandi en við fengum hana í. Ef að Hvammsvirkjun fær að rísa, þá er það meðvituð ákvörðun um að fórna fiskistofnum Þjórsár sem og lífrræðilegri fjölbreytni vatnakerfisins. Ef að það er ætlun stjórnvalda, þá eiga þau að vera hreinskilin með það, í staðinn fyrir að setja upp afarkosti sem þröngva fólki í fylkingar.

Elvar Fridriksson  
Höfundur er framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna (NASF á Íslandi).

Veiðar · Lesa meira