Óttast að áhlaupið sé að hefjast

Eldislegur lax var háfaður í laxastiganum í Blöndu í gær. Það leynir sér ekki að þessi lax er ættaður annars staðar frá, en úr Húnavatnssýslunum. Guðmundur Haukur Jakobsson, varaformaður Veiðifélags Blöndu og Svartár er vakinn og sofinn yfir stiganum og fylgist grannt með fiskveginum sem er lokaður. Sporðaköst ræddu við Guðmund Hauk um þennan nýjasta ódrátt.

„Eftir annasaman dag þá kíkti ég á skoðunar aðganginn í myndavélateljaranum sem er staðsettur í laxastiganum í Blöndu, svona rétt fyrir svefninn. Það er nú illgreinanlegt hvað er á ferðinni sökum yfirfallsins og gruggs í ánni en það fór í gegnum teljarann 80 cm skuggi sem varð til þess að ég fór snemma í gærmorgun og tók stöðuna í laxastiganum og grunur minn var fljótt staðfestur. Þar var stór fiskur sem er klárlega eldisfiskur. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta bara spurning um að staðfesta upprunann, sem sagt úr hvaða eldisstöð. Ég hef áhyggjur af því að nú sé áhlaupið að hefjast og hvað ætla yfirvöld og eftirlitsaðilar að gera? Þú tryggir ekki eftirá,“ sagði Guðmundur Haukur í samtali við Sporðaköst.

Laxinn sem Guðmundur Haukur háfaði í gær. Ber afgerandi einkenni strokulax. Ljósmynd/Guðmundur Haukur

mbl.is – Veiði · Lesa meira