Það er farið að hægja á veiðinni. Framundan er hins vegar spennandi tími þegar hængurinn fer að verja svæðið sitt og þeir stóru fara að gefa sig. Eins og verið hefur í sumar er Ytri Rangá að gefa bestu veiðina eða 402 laxa. Vikan var víða mjög róleg og aðeins tvær aðrar ár náðu þriggja stafa tölu. Eystri Rangá með 107 og Þvera/Kjarrá með hundrað.
Stutta íslenska sumarið er orðið stutt í annan endann. Haustveiðin er nú formlega að hefjast. Rökrið er farið að teygja sig inn á veiðitímann og það gefur tækifæri. Kvöldveiðin í húminu er oft besti tíminn. Oft lægir með kvöldinu og allar aðstæður verða betri. Síðustu mínúturnar gefa oft ef menn eru þolinmóðir.
Úr þessu er ljóst að sumarið mun flokkast sem lélegt í samanburði við önnur ár þegar kemur að fjölda laxa. Ef við horfum yfir landið þá er Borgarfjörðurinn lélegur og vandséð að nokkur á, nema Þverá/Kjarrá nái þúsund löxum. Sama má segja um Vesturlandið í heild sinni þó með þeirri undantekningu að Mýrarnar hafa komið vel út. Straumfjarðará er með betri veiði en í fyrra, sama má segja um Hítará og Haffjarðará er full af fiski þó að hún sé aðeins undir í samanburði við veiði í fyrra. Norðausturhornið hefur heldur gefið eftir.
Eftir stendur Suðurlandið með bestu veiðina og þar eru Rangárnar efstar á blaði. Þjórsá er búin að gefa vel, eins og við höfum sagt frá áður þó að Urriðafoss hafi ekki verið neitt sérstakur. Þar spila aðstæður stórt hlutverk.
Hér horfir Þröstur Elliðason yfir Hólaflúðina í Jöklu, nokkrum dögum fyrir yfirfall. Jökla er enn í sjöunda sæti yfir aflahæstu ár á landinu. Sennilega hefði nýtt met verið slegið þar ef Hálslón hefði haldið í sér. Ljósmynd/Sporðaköst
mbl.is – Veiði · Lesa meira