Róleg vika að baki en nú er það húmið

Það er farið að hægja á veiðinni. Framund­an er hins veg­ar spenn­andi tími þegar hæng­ur­inn fer að verja svæðið sitt og þeir stóru fara að gefa sig. Eins og verið hef­ur í sum­ar er Ytri Rangá að gefa bestu veiðina eða 402 laxa. Vik­an var víða mjög ró­leg og aðeins tvær aðrar ár náðu þriggja stafa tölu. Eystri Rangá með 107 og Þvera/​Kjar­rá með hundrað.

Stutta ís­lenska sum­arið er orðið stutt í ann­an end­ann. Haust­veiðin er nú form­lega að hefjast. Rökrið er farið að teygja sig inn á veiðitím­ann og það gef­ur tæki­færi. Kvöld­veiðin í húm­inu er oft besti tím­inn. Oft læg­ir með kvöld­inu og all­ar aðstæður verða betri. Síðustu mín­út­urn­ar gefa oft ef menn eru þol­in­móðir.

Úr þessu er ljóst að sum­arið mun flokk­ast sem lé­legt í sam­an­b­urði við önn­ur ár þegar kem­ur að fjölda laxa. Ef við horf­um yfir landið þá er Borg­ar­fjörður­inn lé­leg­ur og vand­séð að nokk­ur á, nema Þverá/​Kjar­rá nái þúsund löx­um. Sama má segja um Vest­ur­landið í heild sinni þó með þeirri und­an­tekn­ingu að Mýr­arn­ar hafa komið vel út. Straum­fjarðará er með betri veiði en í fyrra, sama má segja um Hítará og Haffjarðará er full af fiski þó að hún sé aðeins und­ir í sam­an­b­urði við veiði í fyrra. Norðaust­ur­hornið hef­ur held­ur gefið eft­ir.

Eft­ir stend­ur Suður­landið með bestu veiðina og þar eru Rangárn­ar efst­ar á blaði. Þjórsá er búin að gefa vel, eins og við höf­um sagt frá áður þó að Urriðafoss hafi ekki verið neitt sér­stak­ur. Þar spila aðstæður stórt hlut­verk.

Hér horfir Þröstur Elliðason yfir Hólaflúðina í Jöklu, nokkrum dögum fyrir yfirfall. Jökla er enn í sjöunda sæti yfir aflahæstu ár á landinu. Sennilega hefði nýtt met verið slegið þar ef Hálslón hefði haldið í sér. Ljósmynd/Sporðaköst

mbl.is – Veiði · Lesa meira