Rangárnar báðar skiluðu yfir níu hundruð löxum í síðustu viku. Ytri Rangá átti enn eina bestu viku þetta sumarið og komu á land 628 laxar á þessum sjö dögum. Stærsti dagurinn í vikunni skilaði hvorki meira né minna en 124 löxum. Eystri var líka góð og eru þær báðar að skila betri veiði en í fyrra.
Miðfjarðará, þar sem stórlaxarnir hafa verið að veiðast var eina náttúrulega áin sem náði hundrað laxa viku. Reyndar rétt svo en hún gaf 103 laxa í síðustu viku.
Selá var ekki langt undan með 95 laxa og Þverá/Kjarrá með 85.
Annars er þetta sá tími sumars sem þekktur er fyrir rólegheit. Laxagöngum er að mestu lokið og það er ofurlítil biðstaða. Þegar styttist svo í hrygningu og myrkrið fer að mæta þá verður fiskurinn árásargjarnari og þá tekur veiðin oft kipp og haustveiðin getur verið mjög skemmtileg.
Stærsti lax sumarsins í Hítará til þessa. . Stefán Birgisson veiddi þessa 96 sentímetra hrygnu í Langadrætti. Hítará hefur verið að skila töluvert betri veiði en í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is – Veiði · Lesa meira