Síðustu veiðiárnar eru að opna þessa dagana. Sæmundará í Skagafirði fékk sína fyrstu gesti um helgina og lönduðu þeir tveimur löxum. Norðanáttin var í hressilegu aukahlutverki en í opnun laxveiðiár láta menn ekki slíka hluti á sig fá.
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, yngri fékk fyrsta laxinn á fluguna sína Halla. Gulli eins og hann er kallaður hannaði og hnýtir Halla. Þetta var í Dælishyl og sýndi laxinn sig allur þegar hann brást við flugunni. Eins og sjá má á myndinni af Gulla er þessi lax ekki glænýr og eins og í svo mörgum ám virðist hafa ganga seint í maímánuði. Laxinn mældist 87 sentímetrar. Félagi Gulla, Angus Sloss reyndi líka fyrir sér og komst hann á blað í Auðnahyl, þegar nýgenginn 75 sentímetra lax tók hjá honum fluguna Collie dog. Stutt stopp hjá þeim félögum en ákaflega árangursríkt.
Gulli með 87 sentímetra hæng úr Dælishyl í Sæmundará og þann fyrsta 2025. Ekki nýr fiskur og nokkuð síðan að þessi mætti. Kuldalegt þessa dagana. Ljósmynd/Angus Sloss
mbl.is – Veiði · Lesa meira