Sjóbirtingsveiðin hefur verið allt í lagi síðustu daga og veiðimenn að fá fína fiska, vel haldna eftir veturinn. Tungulækur, Tungufljót, Geirlandsá og Vatnamótin hafa verið að gefa flotta veiði. Það hefur aðeins hlýnað og það hefur sitt að segja með aflamagnið. „Veiðitúrinn í Vatnamótin gekk vel og við fengum 41 fisk, hollið á undan okkur, Flugubúllugengið, veiddi 60 fiska, þetta er flott veiði“ sagði Árni Kristinn Skúlason, sem notar hvert tæki sem hann getur til að renna fyrir fiski. „Já hollið veiddi 41 fisk, en stærsti fiskurinn sem við veiddum var 78 sentimetrar og veðrið var fínt á meðan við vorum að veiða, “ sagði Árni ennfremur. Veðurspáin er fín um páskana og hægt að renna fyrir fisk á nokkrum stöðum, bæði í vötnum og ám.
Mynd forsíðu. Marteinn Már nýbúinn að landa fiski í Vatnamótunum.
Veiðar · Lesa meira