Grenlækur – svæði 4

Grenlækur-Flóðið eða Fitjaflóðið eins og það er stundum nefnt, er neðst í Landbroti. Frá þjóðvegi eitt, við Kirkjubæjarklaustur, er ekinn vegur merktur Meðlalland og er u.þ.b. 10 mínútna akstur frá Kirkjubæjarklaustri niður í veiðihús Kipps. Kippur er með fjórðung af veiðidögum á móti SVFK, Ytra-Hrauni og Fossum.

Veiðitímabilið er frá 7. maí til og með 20. október. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Veitt er á fjórar stangir. Jónskvísl og Sýrlækur koma út í Grenlækinn ofan við Flóðið og halda því jöfnu vatnsrennsli í þessum hluta Grenlækjar sem nefnist Flóðið.  Þverárnar koma úr öðru vatnakerfi en efri hluti Grenlækjar og verður því aldrei sama vatnsþurrð þar. Sjóbirtingurinn byrjar gjarnan að ganga seinnipartinn í júlí. Það má fá bleikju og staðbundinn urriða allt veiðitímabilið. Fært er um veiðisvæðið öllum fjórhjóladrifsbílum. Frá aðalslóða út til veiðistaðar sem nefnist Trektin er þó eingöngu fært jeppum. Veiðihús fylgir veiðileyfum á vegum Kipps og er það staðsett í landi Eystra-Hrauns. Svefnaðstaða er fyrir allt að 10 manns og hægt er að fá uppbúin rúm og þrif gegn sérstöku gjaldi. Heitur pottur er við veiðihúsið og öll búsáhöld ásamt grilli eru til staðar– sjá kippur.is.

Emilía Björk Karlsdóttir

Veiðistaðalýsing
Ekið er í 10-15 mínutur eftir slóða frá bænum Arnardranga niður að brúnni yfir Grenlækinn. Veiðisvæðið frá neðsta veiðistað til þess efsta er um það bil fjórir kílómetrar. Við brúna stoppa menn gjarnan og renna en ekki borgar sig að gefa þessum stað langan tíma. Fyrir neðan brúna er Neðri skurður, neðsti veiðistaður svæðisins  og er hann nánast samfelldur veiðistaður á 500 metra kafla en þó eru fjórir djúpir pollar í honum þar sem er meiri veiðivon.

Rétt fyrir ofan brúna er svo veiðistaðurinn Tunnan sem gefur oft stóra fiska bæði í vorveiði og síðsumarsveiði. Aðaltökustaðurinn er efst þar sem rennur í Tunnuna. Rétt er að taka fram að aðeins skal veitt austan megin árinnar á veiðistöðum sem eru fyrir ofan brú. Næst fyrir ofan Tunnuna taka svo við Hólmarnir eða Hólmasvæðið þar sem áin liðast á milli fjölda hólma sem gefa mjög álitlega strengi til að kasta á og skemmtilegt rennsli fyrir fluguna.

Fyrir ofan Hólmana er svo Trektin, sem er með bestu veiðistöðunum en þar þrengist áin þar sem hún kemur úr Flóðinu og ber veiðistaðurinn því nafn með rentu. Djúpur áll er í Trektinni nær vesturbakkanum og því getur verið gott að kasta flugunni sem næst bakkanum. Sennilega er Trektin besti veiðistaðurinn í vorveiðinni. Svo tekur við sjálft Flóðið sem er líkast stöðuvatni þar sem áin breiðir mjög úr sér og því er rennslið mjög hægt. Hægt er að vaða nánast allt flóðið í vöðlum eða á belly báti. Töluverður gróður er víða í vatninu en gróðurlausir pollar eða álar eru á milli þar sem gott er að kasta.

Út frá Bátalóninu sem er merktur veiðistaður, má vaða út á hörðum malarbotni ca 50 metra í hné[EE2] djúpu vatni og myndar botninn þar einskonar tungu út í vatnið. Við jaðar þessarar tungu fá menn oftast tökur og eru þar bæði bleikja og sjóbirtingur. Við Bátalónið er ónýtt gamalt sjúkraskýli. Næsti staður fyrir ofan Bátalónið er Bleikjutangi þar sem einkum má fá bleikju.

Þar sem Grenlækurinn byrjar að breiða úr sér og rennur í Flóðið heitir Vesturbakki og er með gjöfulli veiðistöðunum. Gott er að byrja að kasta flugunni efst þar sem áin rennur í beygju úr Efri skurði og kasta þétt alveg niður þar sem áin byrjar að breiða meira úr sér. Svo er oft veiði við tangana þar fyrir neðan. Efstu veiðistaðirnir eru svo Efri skurður og Breiðan og er aðaltökustaðurinn við fiskikar sem staðsett er á bakkanum.

Í Vesturbakka og Efri skurði má finna fisk nánast alltaf á veiðitíma og eru þetta gjöfulstu veiðistaðirnir ásamt Trektinni sem áður var nefnd. Rétt er að benda veiðimönnum á að fara alls ekki út á vesturbakka veiðisvæðisins þar sem menn hafa lent í ógöngum enda er svæðið eingöngu fært fuglinum fljúgandi. Þar eru mýri og hættulegir sandpittir.


Veiðar · Lesa meira

Ljósmynd/Viðar Guðjónsson