Sjóbirtingurinn snemma í niðurgöngunni?

Það er ró­legt yfir sjó­birt­ingsveiðinni ef marka má töl­ur úr þeim lyk­i­lám sem Sporðaköst fylgj­ast með. Sól­skinið er vissu­lega ekki að hjálpa og sjaldn­ast eiga veiðimenn sam­leið með meg­inþorra þjóðar­inn­ar þegar kem­ur að veðri. Ýmis­legt bend­ir til þess að birt­ing­ur­inn sé snemma í niður­göng­unni.

Tungu­læk­ur hef­ur gefið lang­bestu veiðina eins og alla jafna. Samt er læk­ur­inn mik­ill eft­ir­bát­ur síðasta árs. Nú er búið að landa 458 sjó­birt­ing­um en á sama tíma í fyrra voru þeir 586. Vissu­lega var árið í fyrra það allra besta sem menn hafa séð þar lengi. Allt árið 2024 veidd­ust 1.136 sjó­birt­ing­ar í Tungu­læk sem er al­gert metár miðað við síðustu ár. Þess þá held­ur hefðu menn átt von á áfram­hald­andi moki nú á vor­dög­um. En þá kom­um við að stóru spurn­ing­unni hvort birt­ing­ur­inn hafi verið snemma á ferðinni til sjáv­ar þetta árið. Sama gæti verið uppi á ten­ingn­um í Eld­vatni í Meðallandi. Veiðin þar í apríl er um 25% niður frá því sem var á sama tíma í fyrra. 61 birt­ingi hef­ur verið landað þar en voru komn­ir 85 á land á sama tíma í fyrra og 115 á sama tíma árið 2023. Miðað við veiðibók hef­ur besta veiðin verið neðarlega í Eld­vatn­inu og það styður þá hugs­un að milt vor, eða síðari hluti vetr­ar flýti fyr­ir hon­um og birt­ing­ur­inn haldi fyrr niður. Hins veg­ar er líka spurn­ing hvort veiðin eigi eft­ir að glæðast á nýj­an leik þegar al­vöru vor held­ur inn­reið sína. Áhuga­vert að hugsa til þess að í gær veidd­ist sjó­birt­ing­ur í Fossi og er það einn allra efsti veiðistaður Eld­vatns­ins.

Hann er á í Tungulæk, hjá Bretum fyrr í mánuðinum. Veðrið var milt og kom þeim í opna skjöldu. Áttu von á snjó og frosti. Ljósmynd/Theodór K. Erlingsson

mbl.is – Veiði · Lesa meira