Það er rólegt yfir sjóbirtingsveiðinni ef marka má tölur úr þeim lykilám sem Sporðaköst fylgjast með. Sólskinið er vissulega ekki að hjálpa og sjaldnast eiga veiðimenn samleið með meginþorra þjóðarinnar þegar kemur að veðri. Ýmislegt bendir til þess að birtingurinn sé snemma í niðurgöngunni.
Tungulækur hefur gefið langbestu veiðina eins og alla jafna. Samt er lækurinn mikill eftirbátur síðasta árs. Nú er búið að landa 458 sjóbirtingum en á sama tíma í fyrra voru þeir 586. Vissulega var árið í fyrra það allra besta sem menn hafa séð þar lengi. Allt árið 2024 veiddust 1.136 sjóbirtingar í Tungulæk sem er algert metár miðað við síðustu ár. Þess þá heldur hefðu menn átt von á áframhaldandi moki nú á vordögum. En þá komum við að stóru spurningunni hvort birtingurinn hafi verið snemma á ferðinni til sjávar þetta árið. Sama gæti verið uppi á teningnum í Eldvatni í Meðallandi. Veiðin þar í apríl er um 25% niður frá því sem var á sama tíma í fyrra. 61 birtingi hefur verið landað þar en voru komnir 85 á land á sama tíma í fyrra og 115 á sama tíma árið 2023. Miðað við veiðibók hefur besta veiðin verið neðarlega í Eldvatninu og það styður þá hugsun að milt vor, eða síðari hluti vetrar flýti fyrir honum og birtingurinn haldi fyrr niður. Hins vegar er líka spurning hvort veiðin eigi eftir að glæðast á nýjan leik þegar alvöru vor heldur innreið sína. Áhugavert að hugsa til þess að í gær veiddist sjóbirtingur í Fossi og er það einn allra efsti veiðistaður Eldvatnsins.
Hann er á í Tungulæk, hjá Bretum fyrr í mánuðinum. Veðrið var milt og kom þeim í opna skjöldu. Áttu von á snjó og frosti. Ljósmynd/Theodór K. Erlingsson
mbl.is – Veiði · Lesa meira