Draumafiskar geta verið svo mafgvíslegir. Oft eru það risafiskar eða sá stærsti sem viðkomandi veiðimaður hefur landað. Það getur líka verið ný tegund eða, eins og í þessu tilfelli, við sérstakar aðstæður. Helga Gísladóttir veiðikona og ein af kvennanefndarkonum SVFR veiddi draumafisk um helgina.
Hann var ekki risavaxinn en virkilega flottur fimmtíu sentímetra urriði. Það voru hins vegar aðstæðurnar sem lyftu þessum fiski upp fyrir meðallagið og það hressilega. Helga var í góðum veiðihópi að heimsækja Minnivallalæk í fyrsta skipti. Aðstæður voru gluggaveður. Sól og bjart en svo þegar út var komið, frekar hvasst og kalt.
Helga var meðal annars vopnuð stöng sem hún hafði smíðað sjálf undir dyggri handleiðslu Júlíusar Guðmundssonar, sem kennir slíka smíð. Stöngin hafði þegar sannað sig en ekki skilað fiski. Að þessu sinni var undir púpa sem Helga hannaði sjálf og kallast Moonshine sem gæti útlagst sem landi eða heimabrugg. Flugan á ekkert skylt við sjónvarpsþáttinn Landann.
Svona lítur draumafiskur út. Urriði úr Minnivallalæk. Veiddur á heimasmíðaða stöng og heimasmíðaða púpu. Ljósmynd/Helga Gísla
mbl.is – Veiði · Read More