Nýr leigutaki með Litluá og Skjálftavatn

Fé­lagið R&M ehf hef­ur gert leigu­samn­ing um veiðirétt í Litluá og Skjálfta­vatni í Keldu­hverfi. Matth­ías Þór Há­kon­ar­son er eig­andi R&M en hann leig­ir meðal ann­ars Mýr­arkvísl og Lónsá svo eitt­hvað sé nefnt. Samn­ing­ur milli Matta og stjórn­ar Veiðifé­lags Litlu­ár­vatna var und­ir­ritaður í vik­unni á hót­el­inu í Skúlag­arði.

Matti, eins og hann er ávallt kallaður var hinn ánægðasti með samn­ing­inn sem hef­ur verið und­ir­ritaður og er til fimm ára, frá og með sumr­inu 2026.

Eft­ir að til­boð voru opnuð í Litluá og í ljós kom að fé­lagið var með hæsta boð hef­ur borist mikið af fyr­ir­spurn­um um veiðileyfi. „Já. Það er greini­lega mik­ill áhugi og einn bresk­ur viðskipta­vin­ur sem er bú­inn að vera hjá mér í nokkra daga með hóp er strax bú­inn að panta daga þar á næsta ári,“ sagði Matth­ías í sam­tali við Sporðaköst.

Matthías Þór Hákonarson lengst til vinstri, þá stjórn veiðifélagsins. Jónas Þór Viðarsson, Kristinn Rúnar Tryggvason og Kristjana Sigurðardóttir. Gylfi Kristjánsson framkvæmdastjóri R&M er á hægri vængnum. Ljósmynd/Matthías Þór

mbl.is – Veiði · Lesa meira