Þær kvíslar sem hér um ræðir eru einkum eftirtaldar: Strangakvísl, Öldumóðukvísl, Þjófakvísl, Fellakvísl, Hestalækur og Miðkvísl. Eiga þær allar upptök sín á Stórasandi nokkuð fyrir norðan Langjökul. Að sögn kunnugra, eru flestar kvíslarnar ágætlega vatnsmiklar og eru ekki taldar eins viðkvæmar í þurrkasumrum og margir aðrir lækir eða ár. Þetta er skemmtilegt veiðisvæði, en þó mjög viðkvæmt. Þannig hefur það nú samt verið að leigutakar nýta sér sjálfir réttinn, en leyfa helst kunningjum og vinum að veiða. Þeir vilja helst ekki leyfa annað en flugu og telja það best fyrir bleikjustofninn að sleppa sem mestu. Bleikjan þarna getur verið mjög væn, sex punda bleikjur eru algengar og fyrir kemur að bleikjur allt að átta pundum veiðist.