Arnarvatnsá og Helluvaðsá eru ein og sama áin; heitir Arnarvatnsá ofan til en neðar heitir hún Helluvaðsá. Áin er hliðará Laxár í Mývatnssveit, rennur úr Laxá, rétt ofan við Steinsrass og aftur í Laxá á móts við Brotaflóa um tveimur km neðar. Á þessum tveggja km kafla tekur Arnarvatnsá/Helluvaðsá á sig mikinn krók, svo úr verður um 5 km langt veiðisvæði. Áin er lítil og nett, og á löngum köflum mjög lygn. Hún hefur hinsvegar oft að geyma gríðarlegt magn af fiski og geta þeir stærstu verið allvænir, allt að 6-7 pundum. Á vorin safnast fiskurinn á fáa staði ofan til í ánni en þegar líður á sumarið dreifir hann sér um alla á.