Upptök Austurár eru í Arnarvatni stóra og frá því og niður að heiðargirðingu, sem skilur að afréttina og heimalönd, eru 22 km. Veiðsvæðið sjálft er þó ekki nema 2/3 þeirrar vegalengdar eða um 14 km. Mikill urriði er í ánni og gengur hann niður úr Arnarvatni stóra. Einnig er þar nokkuð af bleikju, helst þar sem áin er lygn og djúpir hyljir. Sá kostur var við ána að veiðin hélst jafnan góð eftir að fiskurinn í vötnunum var búinn að éta nægju sína, lagstur á meltuna og hættur að taka. Mikil sókn í ána er þó talin hafa haft þau áhrif að hún eigi undir höggi að sækja, enda engin stýring á því hvað margir veiða hana og hversu mikið er tekið úr henni.