Baulárvallavatn er um 1,6 km² að stærð og 47 m djúpt, þar sem það er dýpst. Vatnið er um 193 m yfir sjávarmáli. Þangað rennur Vatnaá og úr því rennur Baulá, sem síðar sameinast Straumfjarðará, sem er fræg fyrir góða laxveiði. Góð urriðaveiði er í vatninu og meðalþyngdin um 2-3 pund. Stærri fiskar veiðast, allt að 5-6 pund, þá einkum í ljósaskiptunum. Nokkuð jöfn veiði er allt sumarið, þótt vorið sé oftast gjöfulasti tíminn. Fiskur getur legið djúpt og þarf þá að sökkva agninu. Spónn og maðkur gefa að jafnaði ágæta veiði. Í ljósaskiptunum ferðast urriðinn inn á grunnið við landið og þá er gott að nota flugu.