Berufjarðarvatn er frekar lítið, eða 0,15 km² að flatarmáli, fremur aðgrunnt vestan megin en meira dýpi er að austan. Vatnið er 49 m yfir sjávarmáli og er mesta dýpi rúmlega 2 m. Alifiskalækur fellur í vatnið en Kinnastaðaá fellur úr því til Þorskafjarðar. Það er mikið af fiski í vatninu sem oftast vegur 1 – 3 pund. Mest er af urriða en einnig veiðist þar bleikja. Stærsti fiskur, sem veiðst hefur í Berufjarðarvatni á stöng, vóg um 10 pund. Menn láta yfirleitt vel af veiðinni, enda tekur silungurinn grimmt, og fer yfirleitt enginn fisklaus heim eftir ferð í vatnið. Góð veiði er allt tímabilið en þó best fyrripart sumars. Og eins og víða annarsstaðar, þá gefa morgnar og kvöld bestu veiðina.