Silungasvæðið í Breiðdalsá er fyrir löngu orðinn afar vinsæll pakki og hópar eru í vaxandi mæli að leita eftir því að taka sömu daga að ári. Vissulega eru veður rysjótt snemma á vorin en fiskurinn er til staðar og getur tekið grimmt, auk þess sem menn falla gersamlega fyrir veiðihúsinu að Eyjum. Umhverfi Breiðdalsár er stórbrotið og sagt er að menn veiði óvíða í eins fallegri á en Breiðdalsá. Neðst á silungasvæðinu í Breiðdalsá er að finna sjóbleikju og einstaka sjóbirting og lax. Ofar í ánni, inn á dal talsvert ofan við fossinn Beljanda, er að finna staðbundinn urriða og einnig ofarlega í Norðurdalsá. Meðal árveiði er um 270 bleikjur og 480 urriðar.