Djúpa er í Þingeyjarsýslu og rennur úr Ljósavatni í Skjálfandafljót. Hið raunverulega laxasvæði í Djúpá nær frá stíflunni við gömlu rafstöðina og niður að laxastiganum neðarlega í ánni, stuttu fyrir ofan ármótin. Um tíma nýttu landeigendur sér veiðiréttinn sjálfir, en nú selja þeir leyfi og áin á sér fasta áskrifendur, þó ekki sé staðið við veiðar alla daga frá morgni til kvölds. Þarna veiðast um 60 – 100 laxar á sumri og er Djúpá stórlaxaá eins og þær gerast bestar. Silungasvæðið svokallaða, frá Rafstöð upp að Ljósavatni, fylgir nú með laxasvæðinu. Þarna eru margir gullfallegir veiðistaðir og engir smáfiskar, fimm til sex punda eru algengir. Silungasvæðinu eru gerð skil í annarri grein hér á vefnum.