Elliðaárnar eru vinsælar veiðiár og það er sannarlega fágætt að geta stundað laxveiðar í miðri höfuðborg. Veiði í ánum hefur verið nokkuð stöðug undanfarin ár, með meðalveiði upp á tæplega 1000 laxa. Það er bjart framundan, því Elliðaárnar eru algjörlega sjálfbærar og samkvæmt mælingum vísindamanna var seiðastofninn 2015 vel haldinn og yfir meðallagi. Áin hefur verið gríðarlega vinsæl meðal félagsmanna SVFR og færri komist að en vilja á besta tíma. Börn og unglingar geta notið þess að veiða í ánni einn dag á sumri undir leiðsögn kunnugra manna. Hefur sú hefð átt drjúgan þátt í því að gera árnar fjölskylduvænar.
SVFR býður upp á stórskemmtilega vorveiði á urriða í Elliðaánum í maí, þar sem veitt er á tvær stangir og eingöngu leyfð fluga. Frekari upplýsingar um þennan möguleika er á síðunni um Silungsveiðiár á Suðvesturlandi.