Geitafellsá er lítil á í Reykjahverfi og er hluti af hinu víðfeðma vatnakerfi Laxár í Aðaldal. Hún kemur úr Kringluvatni og rennur til Langavatns. Þetta er góð urriðaá og leynast þarna vænir fiskar inn á milli, en oftast eru þeir þetta 400 – 600 gr. Seinna um sumarið gengur bleikja upp í ánna, úr Langavatni, og er þá hægt að lenda í góðri veiði. Þetta er yfirleitt í júlí eða ágúst. Við Geitafellsá ber að fara varlega um bakkana til að styggja ekki fisk og þarna geta menn svo sannarlega lent í ævintýralegri veiði á þurrflugu þegar aðstæður leyfa.