Héðinsfjarðará hefur löngum verið ákaflega vinsæl bleikjuveiðiá enda hafa oft verið sagðar sögur af stútfullri ánni af bleikju. Áður en Héðinsfjarðargöng voru byggð var ekki hlaupið að því að komast í ána. Var þá ýmist farið á bátum frá Siglufirði eða gengið yfir Hólsskarð sem er um þriggja tíma ganga. Bleikjan byrjar að ganga seinnipartinn í júní upp í Héðinsfjarðarvatn, en í júlí er svo mesta gangan í sjálfa ána. Þetta er allvæn bleikja og getur hæglega farið í allt að 5 pund. Fyrir þennan tíma getur verið góð veiði í fjörunni fyrir framan Héðinsfjarðarvatnið sjálft.