Herbjarnarfellsvatn er í fallegri skál undir Herbjarnarfelli, lítið eitt norðvestan skálanna við Landmannahelli. Það er í 630 m hæð yfir sjó og er áætlað flatarmál þess 0.54 km². Í vatninu var hin ágætasta veiði á sínum tíma en í það var sleppt urriða árið 1967. Dæmi voru um allt að 7 punda fiska en nú er öldin önnur. Herbjarnarfellsvatn er fullt af fremur smáum urriða, þó góðum matfiski. Hefur vatnið aldrei verið grisjað en þess er mikil þörf. Góður vegur liggur að vatninu.