Hestvatn er stórt og djúpt vatn norðan Hestfjalls í Grímsnesi. Það er 6.8 km² að flatarmáli og mesta dýpi þess er 60 m sem þýðir að vatnsbotninn nær allt að 12 m niður fyrir sjávarmál. Útfall þess er norður við Hestfjall, til Hvítár um Slauku. Hestvatn er gott veiðivatn, í því fæst bleikja, urriði og murta. Veiðst hafa bleikjur um þrjú til fjögur pund, þótt megnið af fiskinum sé smærra. Urriðinn í vatninu getur einnig orðið býsna vænn og hafa fengist fiskar allt að átta pundum, enda þótt þeir séu fáséðir. Helstu veiðistaðir eru við Kríutanga, Heimavík, Austurvík og Vesturvík. Það er hægt að aka alla leið að Heimavík en 5-10 mín. gangur frá veginum að Austur- og Vesturvík.