Hítarvatn á Mýrum í Borgarbyggð er 7,6 km² að stærð og er í 147 m hæð yfir sjávarmáli. Úr vatninu rennur ein þekktasta laxveiðiá landsins, Hítará. Veiðisvæðið spannar allt Hítarvatn en mjög góð silungsveiði er í vatninu, bæði urriði og bleikja. Góð veiði er jafnan þar sem lækir renna í vatnið, undir hrauni sem og inn í botni vatnsins. Gangur inn með vatninu, hvort heldur að austan eða vestan er boðlegur. Gangurinn að austan getur þó verið nokkuð erfiður á köflum, gróft hraun og ekki allra að fóta sig neðan Foxufells þegar hátt stendur í vatninu. Nokkuð jöfn veiðivon er yfir veiðitímabilið.