Hlíðarvatn er í Sauðaneshreppi í N-Þingeyjarsýslu, um 15 km frá Þórshöfn. Það er 0,27 km² að flatarmáli, frekar grunnt og í 9 m hæð yfir sjó. Lækir renna úr því um Krossós til sjávar. Ástæðan fyrir því að vatnið er stundum nefnt Bæjarvatn er sú að bærinn Hlíð stendur stutt frá því. Fiskurinn í vatninu er afbragðsgóður, bæði bleikja og urriði. Mest er þetta staðbundinn fiskur en eitthvað gengur af sjóbleikju og sjóbirtingi um fyrrnefnda læki. Mest af bleikjunni er um 300 – 400 g, en þær stærstu sennilega um tveggja punda. Urriðinn er lítið eitt stærri, 400 – 600 g að jafnaði, og þeir stærstu um tvö pund. Er bleikjan í vatninu öllu liðfleiri. Talsverðar netaveiðar eru stundaðar í vatninu.